Samkvæmt Landnámu voru fyrstu ábúendur á Eyri við Arnarfjörð þau Grélöð Bjartmarsdóttir og Ánn rauðfeldur, Grímssonar Loðinkinnar. Ánn flúði Noreg vegna ósættis við Harald hárfagra og herjaði í víking á Írland. Þar fékk hann konu sína Grélöðu sem sigldi með honum til Íslands.
Flutt að Eyri
Þau komu í Arnarfjörð en þar var fyrir landnámsmaðurinn Örn sem fyrstur manna nam fjörðinn. Fyrsta veturinn dvöldu þau Grélöð og Ánn í Dufansdal sunnan megin í Arnarfirði. Þar „þótti Grélöðu illa ilma úr jörðu“ og fluttu þau sig yfir að Eyri eftir að Örn seldi þeim landnám sitt áður en hann fór í Eyjafjörð til frænda síns Hámundar heljarskinns. Á Eyri „þótti Grélöðu hunangsilmur úr grasi“ og undi sér betur. Af þessu að dæma hefur Grélöð verið sterk kona sem hafði mikil áhrif á ráðahag þeirra hjóna.
Bjuggu þau á Grélutóftum?
Lengi var talið að bæ þeirra væri að finna í svokölluðum Grélutóftum við ósa Hrafnseyrarár. Þjóðminjasafnið rannsakaði tóftirnar á árunum 1977-1978. Í ljós kom fremur lítill og fátæklegur bær. Líklegt verður að teljast að Ánn og Grélöð hafi verið efnuð og því verður að teljast ólíklegt að bærinn sé skáli þeirra. Það eitt að ráða yfir skipi sem var haffært í siglingar á milli landa ber merki um ríkidæmi. Auk þess hafði hann herjað á Bretlandseyjar og væntanlega efnast vel á ránsfengnum. Líklegra er að á Grélutóftum hafi búið fólk sem fékk úthlutað parti af landnámi t.d. leysingi landnámsmanns, þ.e. þræll sem leystur er úr ánauð. Í Landnámu er greint frá tveimur leysingjum Áns og Grélaðar sem fengu land. Dufan sem byggði Dufansdal og Hjallkár sem bjó á Hjallkárseyri, nokkra kílómetra innan við Hrafnseyri. Bæði nöfn þessara manna eru írsk.