- Sýning í tilefni 80 ára lýðveldisafmælis og 1150 ára sögu Íslandsbyggðar -

Á 80 ára afmæli lýðveldisins, árið 2024, minnumst við einnig 1150 ára sögu Íslandsbyggðar. Af þessu tilefni var sett upp sýningin „Landnám í Arnarfirði“ á Hrafnseyri sem opnaði formlega 16. júní. Á sýningunni var fjallað um fornleifarannsóknir í Arnarfirði og úrval gripa frá landnámsöld sýndir. Gripirnir eru úr fornleifauppgrefti á Hrafnseyri og Auðkúlu. Hér að neðan birtist sýningartextinn að mestu leyti ásamt ljósmyndum sem prýddu sýninguna.

Árin 1977 og 1978 voru grafnar landnámsrústir á Grélutóftum í landi Hrafnseyrar á vegum Þjóðminjasafns Íslands undir stjórn Guðmundar Ólafssonar fornleifafræðings. Árið 2011 hófst rannsóknin „Arnarfjörður á miðöldum“ hjá fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða undir stjórn Margrétar Hrannar Hallmundsdóttur. Sú rannsókn hefur staðið yfir óslitið og er fjórtánda ár hennar farið í hönd. Grafið hefur verið á Hrafnseyri og Auðkúlu auk fleiri rannsókna víðar um fjörðinn. Niðurstöðurnar sýna að landnám hefst mjög snemma í Arnarfirði eða á síðari hluta 9. aldar og virðist Arnarfjörður hafa byggst hratt og verið þéttbýll. Búið var á Hrafnseyri, Auðkúlu og Grélutóftum á sama tíma á 9. öld. Auk þess hefur rannsóknin leitt í ljós skála frá landnámsöld við Dynjanda og á Litla-Tjaldanesi og eru vísbendingar um fleiri óþekktar landnámsminjar víðar í firðinum.

Sýningin varpar ljósi á niðurstöður rannsóknarinnar en jafnframt prýðir hana úrval gripa frá landnámsöld sem fundist hafa í jörðu á Hrafnseyri og Auðkúlu.

Sýningartexti og uppsetning var í höndum Margrétar Hrannar Hallmundsdóttur, fornleifafræðings við Náttúrustofu Vestfjarða sem hefur leitt rannsóknina "Arnarfjörður á miðöldum" sem staðið hefur yfir frá árinu 2011.

Samkvæmt Landnámu voru fyrstu ábúendur á Eyri við Arnarfjörð þau Grélöð Bjartmarsdóttir og Ánn rauðfeldur, Grímssonar Loðinkinnar. Ánn flúði Noreg vegna ósættis við Harald hárfagra og herjaði í víking á Írland. Þar fékk hann konu sína Grélöðu sem sigldi með honum til Íslands.

Flutt að Eyri
Þau komu í Arnarfjörð en þar var fyrir landnámsmaðurinn Örn sem fyrstur manna nam fjörðinn. Fyrsta veturinn dvöldu þau Grélöð og Ánn í Dufansdal sunnan megin í Arnarfirði. Þar „þótti Grélöðu illa ilma úr jörðu“ og fluttu þau sig yfir að Eyri eftir að Örn seldi þeim landnám sitt áður en hann fór í Eyjafjörð til frænda síns Hámundar heljarskinns. Á Eyri „þótti Grélöðu hunangsilmur úr grasi“ og undi sér betur. Af þessu að dæma hefur Grélöð verið sterk kona sem hafði mikil áhrif á ráðahag þeirra hjóna.

Bjuggu þau á Grélutóftum?
Lengi var talið að bæ þeirra væri að finna í svokölluðum Grélutóftum við ósa Hrafnseyrarár. Þjóðminjasafnið rannsakaði tóftirnar á árunum 1977-1978. Í ljós kom fremur lítill og fátæklegur bær. Líklegt verður að teljast að Ánn og Grélöð hafi verið efnuð og því verður að teljast ólíklegt að bærinn sé skáli þeirra. Það eitt að ráða yfir skipi sem var haffært í siglingar á milli landa ber merki um ríkidæmi. Auk þess hafði hann herjað á Bretlandseyjar og væntanlega efnast vel á ránsfengnum. Líklegra er að á Grélutóftum hafi búið fólk sem fékk úthlutað parti af landnámi t.d. leysingi landnámsmanns, þ.e. þræll sem leystur er úr ánauð. Í Landnámu er greint frá tveimur leysingjum Áns og Grélaðar sem fengu land. Dufan sem byggði Dufansdal og Hjallkár sem bjó á Hjallkárseyri, nokkra kílómetra innan við Hrafnseyri. Bæði nöfn þessara manna eru írsk.

Skálinn á Grélutóftum við lok uppgraftar árið 1978. Ljósmynd: Guðmundur Ólafsson.
Skálinn á Grélutóftum við lok uppgraftar árið 1978. Ljósmynd: Guðmundur Ólafsson.
1 af 2

Árin 1977-1978 fóru fram fornleifarannsóknir, á vegum Þjóðminjasafns Íslands, í landi Hrafnseyrar á rústum sem kallaðar voru Grélutóftir og eru staðsettar við ósa Hrafnseyrarár. Rannsókninni stjórnaði Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur.

Lítill skáli með viðbyggingu var rannsakaður ásamt tveimur jarðhýsum. Einnig var rannsakað hús sem talið er að sé rauðasmiðja, vegna leifa af járnvinnslu, auk lítils húss sem ætla má að hafi verið smiðja. Skálinn sjálfur er lítill, eða 14 m á lengd og 5 m á breidd og í honum fannst ekki mikið af gripum. Fleiri minjar eru á svæðinu sem ekki hafa verið rannsakaðar.

Skáli Grélaðar og Áns?
Ólíklegt verður að teljast að höfðingjar á borð við Grélöðu og Án hafi búið í þessum skála. Helstu rökin eru þau að skálinn er lítill og ber þess ekki merki að þar hafi búið efnað fólk. Ánn var norrænn maður sem herjaði á Írland eftir að hafa flúði ofríki Haralds hárfagra. Það er einmitt í þessum herferðum sem hann fékk Grélöðu sem eiginkonu en hún var írsk jarlsdóttir. Það eitt að eiga skip sem var haffært í siglingar á milli landa ber merki um ríkidæmi, auk þess sem norrænir menn sem herjuðu í víking á Bretlandseyjum efnuðust vel af ránsfengnum. Líklegra er að á Grélutóftum hafi búið fólk sem fékk úthlutað parti af landnámi t.d. leysingi landnámsmanns, þ.e. þræll sem leystur er úr ánauð. Í Landnámu er greint frá tveimur leysingjum Áns og Grélaðar sem fengu land. Dufan sem byggði Dufansdal og Hjallkár sem byggði Hjallkárseyri. Bæði nöfn þessara manna eru írsk.

Unnið við rannsókn á jarðhýsi sumarið 2013.
Unnið við rannsókn á jarðhýsi sumarið 2013.
1 af 5

Jarðhýsi frá 10.öld

Fornleifarannsókn hófst á Hrafnseyri árið 2011 með könnunarskurðum í túninu austan við kirkjuna. Strax kom í ljós að rétt undir sverði var mikið af fornleifum.

Við rannsókn fannst stórt jarðhýsi í miðju túninu sem var rannsakað nánar með fornleifauppgrefti árin 2012 og 2013. Jarðhýsi eru hús sem oftast voru að hluta grafin niður í jörðina með þaki sem hvíldi á veggjum. Líklegt er að jarðhýsið sé frá 9.-10. öld. Jarðhýsi finnast oftast mjög nærri skálum á landnámsbýlum og hafa slíkar byggingar fundist á Grelutóftum og Auðkúlu rétt framan við skálana. Jarðhýsi voru líklega fjölnota byggingar. Algengt er að kljásteinar, sem notaðir voru til að strekkja á uppistöðu í vefstað, finnist í jarðhýsum, sem bendir til þess að húsin hafi meðal annars verið notuð sem vefjarstofur. Stórir ofnar eru nær alltaf í húsunum, gerðir úr flötu grjóti. Í eldstæðunum finnst mikið af hnefastóru grjóti sem hefur verið hitað. Líklegt er að þarna sé um að ræða ofna fyrir gufubað en lýsingu á húsi sem notað var í þeim tilgangi er að finna í Eyrbyggju. Líklega eru þetta húsin sem kölluð eru kvennadyngjur í Íslendingasögum, þ.e. hús sem konur unnu og dvöldu í. Jarðhýsið sem fannst á Hrafnseyri var niðurgrafið um 120 sentímetra, veggir voru úr strengjatorfi og hefur þak hvílt á veggjum. Margir kljásteinar fundust í gólfi en auk þess fannst skaft af klébergspotti við eldstæðið og á miðju gólfi fannst spjótsoddur.

Notkun þessara húsa var hætt um árið 1000 en ekki er vitað hvers vegna.

Könnunarskurðir sem leiddu í ljós staðsetningu skálans.
Könnunarskurðir sem leiddu í ljós staðsetningu skálans.
1 af 4

Skáli neðan Bælisbrekku á Hrafnseyri
Árið 2020 fannst skáli neðan við brekkuna skammt frá jarðhýsinu. Könnunarskurðir voru gerðir sem staðfestu bygginguna sem virðist vera um 30 metrar á lengd og telst það mjög stór skáli. Rannsóknir munu hefjast á hluta þeirrar byggingar sumarið 2024.

Líklegt er að þessi skáli sé frá sama tíma og jarðhýsið miðað við fjarlægð á milli bygginganna og þegar tekið er mið af þeim skálum sem rannskaðir hafa verið í nágrenninu sem báðir hafa jarðhýsi rétt framan við skála.

Kola og járnvinnsla á Hrafnseyri
Við hlið jarðhýsisins fannst kolagröf með töluverðu magni kola neðst. Efst var þykkt lag af rusli og greinilegt að kolagröfin hafði verið fyllt með því eftir að notkun var hætt. Líklegt er að kolagröfin hafi verið þarna áður en jarðhýsið var gert enda óhentugt að hafa kolagröf við hlið húss. Aldursgreiningar á kolum sýna að gröfin er frá 10. öld. Aðeins ofar í túninu fannst önnur stór kolagröf og benda aldursgreiningar til þess að hún sé frá því um 884. Ummerki í kring um kolagrafirnar benda til að járnvinnsla hafi farið fram í túninu á Hrafnseyri á 9. og 10. öld.

Rannsóknir hafnar á „Undirgangi“.
Rannsóknir hafnar á „Undirgangi“.
1 af 5

Virkisveggur Hrafns Sveinbjarnarsonar?
Hrafn Sveinbjarnarson var höfðingi sem bjó á Hrafnseyri í lok 12. aldar og fram á byrjun 13. aldar. Árið 1213 var Hrafn drepin af frænda sínum Þorvaldi Vatnsfirðingi en þeir höfðu átt í langvinnum deilum. Í Hrafnssögu er greint frá því að hátt virki hafi verið um bæ Hrafns. Mönnum var lyft upp á skjöldum sem hvíldu á spjótsoddum til að komast yfir virkið, í síðustu atlögu þeirra að Hrafni.

Munnmæli um virkisvegg
Heimildarmaður sem bjó á Hrafnseyri sem barn um miðja 20. öld greindi frá því að við kirkjugarðshornið hefði verið hrúga af stóru grjóti sem gamla fólkið í Arnarfirði sagði grjót úr virki Hrafns. Líklega hefur grjótið komið upp þegar teknar voru grafir þarna í horninu á kirkjugarðinum.

Virkisveggurinn fundinn?
Við rannsóknir árið 2013 fundust leifar af mannvirki sem virðist hafa verið mjög breiður garður sem liggur inn í núverandi kirkjugarð og er því mun eldri en hann. Í undirstöðum garðsins er stórt grjót og hefur hann verið byggður úr torfi og grjóti. Ekki er fullyrt að um virkisgarð sé að ræða en veggurinn er veglegur.

Skálinn á Auðkúlu. Fornleifafræðingar við uppgröft á jarðhýsi framan við skálann.
Skálinn á Auðkúlu. Fornleifafræðingar við uppgröft á jarðhýsi framan við skálann.
1 af 6

Skálar
Árið 2013 fannst skáli á Auðkúlu, næsta bæ við Hrafnseyri. Skálinn er mun stærri en sá á Grélutóftum, eða 23 m á lengd og 7 m á breidd og hafði bakhýsi rétt eins og skálinn á Grélutóftum. Í skálanum fannst mikið af gripum sem bendir til þess að nokkuð efnað fólk hafi búið þar. Talsvert af skartgripum fundust t.d. perlur, brot af kúptri nælu sem konur skörtuðu og fallegur silfurhringur.

Tveir minni skálar fundust jafnframt að baki stóra skálans og voru þeir byggðir ofan á hvor öðrum og því greinilega yngri og eldri bygging. Minni skálinn var í flestu líkur þeim stærri en hann sneri þvert á stóra skálann og inngangur var á gafli. Greina mátti að bekkir höfðu verið beggja vegna við lítinn langeld á miðju gólfi.

Fjós
Stórt fjós fannst á Auðkúlu. Fjósið hefur verið um 22 metrar að lengd og ef rétt er reiknað hafa rúmast um 40 gripir í því, sem gerir fjósið að stærsta fjósi sem rannsakað hefur verið frá landnámstímanum. Í könnunarskurðum kom í ljós hellulagður flór eftir miðju húsinu.

Rauðasmiðja og járnvinnsla
Rétt ofna við fjósið fannst rauðasmiðja sem var byggð utan um járnvinnsluofna. Auk þess fannst mikið af kolum og gjalli, sem fellur til við járnvinnslu, ásamt mýrarrauða sem járnið var unnið úr. Greinilegt er að járnvinnsla hefur verið algeng í Arnarfirði því minjar um járnvinnslu hafa fundist á öllum þremur býlunum sem hafa verið rannsökuð. Nokkrir ofnar hafa verið rannsakaðir á Auðkúlu auk kolagrafar og ljóst að umfang járnvinnslunnar hefur verið umtalsvert.

Lítið hús inn í hringlaga gerði sem er líklega lítið bænhús og kirkjugarður.
Lítið hús inn í hringlaga gerði sem er líklega lítið bænhús og kirkjugarður.
1 af 6

Bænhús og kirkjugarður
Við hlið skálans fannst hringlaga gerði og innan þess lítið hús. Gerðið og byggingarlag hússins bendir til að þarna sé um að ræða bænhús og lítinn kirkjugarð. Bænhúsið og garðurinn eru með þeim minnstu sem fundist hafa hér á landi.

Innan garðsins eru ummerki um grafir, en engin bein fundust þó í þeim. Ástæður þess gætu verið slæm varðveisluskilyrði eða að beinin hafi verið flutt þegar búseta lagðist af á bænum. Í „Kristinna laga þætti“ Grágásar er kveðið á um þá skyldu að flytja öll bein þegar kirkja er aftekin eða flutt er af bæ. Þótt kristni hafi ekki verið lögtekin á Íslandi fyrr en árið 1000 er vel mögulegt að landnámsmenn sem settust að á Auðkúlu hafi verið kristnir. Aldursgreiningar minjanna benda til að þar hafi verið búið frá upphafi landnáms.

Jarðhýsi
Jarðhýsi var framan við skálann. Þar fundust merki um vefnað og stór ofn var í horni hússins með fjölda eldsprunginna steina en ofninn er mun stærri en þyrfti til að kynda hús af þessari stærð. Þetta bendir til þess að húsið hafi verið notað sem vefjastofa en einnig sem gufubað.

Þangbrennsluhús
Á miðju túninu fannst hús og virðist sem þang hafi verið brennt utan við það og geymt í húsinu. Rannsóknir standa yfir á þessu en mögulegt er að þarna hafi farið fram framleiðsla á svokölluðu svörtu salti úr þangi og þara. Þetta hús er einstakt og hefur ekkert sambærilegt hús fundist á Íslandi, nema á Grélutóftum á Hrafnseyri þar sem einnig fannst brennt þang í litlu húsi. Þetta gæti bent til að hinir fyrstu Arnfirðingar hafi stundað þessa framleiðslu.

Upplýsingar

Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.

A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.

Opnunartími (Opening hours)

1. júní - 8. september

kl. 11:00 - 17:00 alla daga

Á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hópar utan opnunartíma
Vinsamlegast hafið samband til að bóka komur hópa utan opnunartíma.

Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is