Virkisveggur Hrafns Sveinbjarnarsonar?
Hrafn Sveinbjarnarson var höfðingi sem bjó á Hrafnseyri í lok 12. aldar og fram á byrjun 13. aldar. Árið 1213 var Hrafn drepin af frænda sínum Þorvaldi Vatnsfirðingi en þeir höfðu átt í langvinnum deilum. Í Hrafnssögu er greint frá því að hátt virki hafi verið um bæ Hrafns. Mönnum var lyft upp á skjöldum sem hvíldu á spjótsoddum til að komast yfir virkið, í síðustu atlögu þeirra að Hrafni.
Munnmæli um virkisvegg
Heimildarmaður sem bjó á Hrafnseyri sem barn um miðja 20. öld greindi frá því að við kirkjugarðshornið hefði verið hrúga af stóru grjóti sem gamla fólkið í Arnarfirði sagði grjót úr virki Hrafns. Líklega hefur grjótið komið upp þegar teknar voru grafir þarna í horninu á kirkjugarðinum.
Virkisveggurinn fundinn?
Við rannsóknir árið 2013 fundust leifar af mannvirki sem virðist hafa verið mjög breiður garður sem liggur inn í núverandi kirkjugarð og er því mun eldri en hann. Í undirstöðum garðsins er stórt grjót og hefur hann verið byggður úr torfi og grjóti. Ekki er fullyrt að um virkisgarð sé að ræða en veggurinn er veglegur.