Skáli neðan Bælisbrekku á Hrafnseyri
Árið 2020 fannst skáli neðan við brekkuna skammt frá jarðhýsinu. Könnunarskurðir voru gerðir sem staðfestu bygginguna sem virðist vera um 30 metrar á lengd og telst það mjög stór skáli. Rannsóknir munu hefjast á hluta þeirrar byggingar sumarið 2024.
Líklegt er að þessi skáli sé frá sama tíma og jarðhýsið miðað við fjarlægð á milli bygginganna og þegar tekið er mið af þeim skálum sem rannskaðir hafa verið í nágrenninu sem báðir hafa jarðhýsi rétt framan við skála.
Kola og járnvinnsla á Hrafnseyri
Við hlið jarðhýsisins fannst kolagröf með töluverðu magni kola neðst. Efst var þykkt lag af rusli og greinilegt að kolagröfin hafði verið fyllt með því eftir að notkun var hætt. Líklegt er að kolagröfin hafi verið þarna áður en jarðhýsið var gert enda óhentugt að hafa kolagröf við hlið húss. Aldursgreiningar á kolum sýna að gröfin er frá 10. öld. Aðeins ofar í túninu fannst önnur stór kolagröf og benda aldursgreiningar til þess að hún sé frá því um 884. Ummerki í kring um kolagrafirnar benda til að járnvinnsla hafi farið fram í túninu á Hrafnseyri á 9. og 10. öld.