Jarðhýsi frá 10.öld
Fornleifarannsókn hófst á Hrafnseyri árið 2011 með könnunarskurðum í túninu austan við kirkjuna. Strax kom í ljós að rétt undir sverði var mikið af fornleifum.
Við rannsókn fannst stórt jarðhýsi í miðju túninu sem var rannsakað nánar með fornleifauppgrefti árin 2012 og 2013. Jarðhýsi eru hús sem oftast voru að hluta grafin niður í jörðina með þaki sem hvíldi á veggjum. Líklegt er að jarðhýsið sé frá 9.-10. öld. Jarðhýsi finnast oftast mjög nærri skálum á landnámsbýlum og hafa slíkar byggingar fundist á Grelutóftum og Auðkúlu rétt framan við skálana. Jarðhýsi voru líklega fjölnota byggingar. Algengt er að kljásteinar, sem notaðir voru til að strekkja á uppistöðu í vefstað, finnist í jarðhýsum, sem bendir til þess að húsin hafi meðal annars verið notuð sem vefjarstofur. Stórir ofnar eru nær alltaf í húsunum, gerðir úr flötu grjóti. Í eldstæðunum finnst mikið af hnefastóru grjóti sem hefur verið hitað. Líklegt er að þarna sé um að ræða ofna fyrir gufubað en lýsingu á húsi sem notað var í þeim tilgangi er að finna í Eyrbyggju. Líklega eru þetta húsin sem kölluð eru kvennadyngjur í Íslendingasögum, þ.e. hús sem konur unnu og dvöldu í. Jarðhýsið sem fannst á Hrafnseyri var niðurgrafið um 120 sentímetra, veggir voru úr strengjatorfi og hefur þak hvílt á veggjum. Margir kljásteinar fundust í gólfi en auk þess fannst skaft af klébergspotti við eldstæðið og á miðju gólfi fannst spjótsoddur.
Notkun þessara húsa var hætt um árið 1000 en ekki er vitað hvers vegna.
Upplýsingar
Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.
A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.
Opnunartími (Opening hours)
1. júní - 8. september
kl. 11:00 - 17:00 alla daga
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.
Hópar utan opnunartíma
Vinsamlegast hafið samband til að bóka komur hópa utan opnunartíma.
Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is