Hrafn Sveinbjarnarson (d. 1213)

Fyrsti ábúandinn, sem vitað er um með vissu á Hrafnseyri eftir dauða Áns rauðfelds landnámsmanns, er Sveinbjörn Bárðarson, er bjó þar á seinni hluta 12. aldar. Faðir Sveinbjarnar var Bárður svarti, sem í Sturlunga sögu er jafnan kenndur við Selárdal, ystur Ketildala sem í byggð hafa verið við suðurströnd Arnarfjarðar. Bárður svarti var Atlason, en Atli þessi, afi Sveinbjarnar og þar með langafi Hrafns sonar hans, var í liði Magnúsar konungs Ólafssonar góða í orustunni við Hlýrskógaheiði árið 1043 þegar hann barðist við Vindi (eða Vinði). Þá vitraðist Ólafur konungungur Magnúsi syni sínum og bað hann velja tólf menn úr her sínum til þess að binda um sár manna eftir orustuna og skyldu þeir fá lækningamátt sinn af guði, og skildi sá máttur haldast í ætt þeirra þar eftir. Atli var einn þessara 12 manna sem valdir voru til að binda  um sár hermannanna, og „Svá kom lækning af guðs miskunn fyrsta sinni í kyn Bárðar svarta“, eins og segir í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar hinni sérstöku.

Sveinbjörn Bárðarson á Eyri við Arnarfjörð var goðorðsmaður, athafnamaður mikill, vitur og læknir góður. Sveinbjörn og kona hans Steinnun Þórðardóttir áttu tvo syni og fimm dætur. Frægust þeirra barna er vafalaust Hrafn Sveinbjarnarson, sem tekinn var af lífi á Hrafnseyri af Þorvaldi Vatnsfirðingi 4. Mars 1213.

Hrafn Sveinbjarnarson var einn vinsælasti og merkasti höfðingi landsins á seinni hluta 12. aldar og í byrjun þeirrar 13. Höðingjaveldi hans náði frá Ísafjarðardjúpi suður um alla Vestfirði og norðanverðan Breiðafjörð. Hann var víðförull og ferðaðist meðal annars til Noregs, Englands, Frakklands, Spánar og Ítlalíu á sinni stuttu ævi, en hann var rúmlega fertugur þegar hann lést. Hann var kirkjunnar maður og vildi veg hennar sem mestan. Einnig er Hrafn talinn vera fyrsti eiginlegi læknirinn á Íslandi.

Hrafn var á unga aldri mikill atgerfismaður og hafði alla þá kosti sem höfðingja mátti prýða. Hann var myndarlegur (eða réttleitur, eins og stendur í sögunni) og  svarthærður. Hann var einnig  sundmaður ágætur og mikill bogmaður. Hann var sérlega góður smiður bæði á tré og járn. Lögvitur og lærður og vel máli farinn. Hann var einnig hinn besti læknir. Aldrei þáði hann fé fyrir lækningar sínar og tók hann þó við mörgum  félausum sjúklingum og hafði þá hjá sér þangað til þeir voru læknaðir. Hrafn Sveinbjarnarson var þekktasti læknir Íslendinga á Þjóðveldisöld, innanlands sem utan.

Upplýsingar

Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.

A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.

Opnunartími (Opening hours)

1. júní - 8. september

kl. 11:00 - 17:00 alla daga

Á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hópar utan opnunartíma
Vinsamlegast hafið samband til að bóka komur hópa utan opnunartíma.

Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is