Fornminjadagur á Hrafnseyri

Frá uppgreftrinum á Auðkúlu. Ljósmynd: Margrét Hrönn Hallmundsdóttir.
Frá uppgreftrinum á Auðkúlu. Ljósmynd: Margrét Hrönn Hallmundsdóttir.

Laugardaginn 19. ágúst verður haldinn fornminjadagur á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Dagurinn hefst á kynningu Margrétar Hrannar Hallmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Náttúrustofu Vestfjarða um rannsókninna „Arnarfjörður á miðöldum. Rannsóknin hefur staðið yfir frá árinu 2011 á vegum Náttúrustofu Vestfjarða. Að kynningu lokinni verður boðið í stutta vettvangsgöngu um Hrafnseyri og að lokum farið yfir á Auðkúlu.

Á undanförnum árum hafa fundist afar merkilegar fornminjar á Hrafnseyri, bæði frá landnámi og miðöldum. Má þar nefna skála og jarðhýsi frá landnámsöld auk merkilegra minja frá miðöldum á borð við jarðgöng. Á næsta bæ við Hrafnseyri, Auðkúlu í Auðkúluhreppi, hafa staðið yfir rannsóknir á landnámsbýli frá árinu 2015. Uppgröftur stendur yfir á svæðinu í sumar og verður boðið upp á leiðsögn um svæðið í lok dags. Þá er ótalinn nýjasti hluti verkefnisins sem er rannsókn á sextándualdarbýlinu Skjaldfönn í botni Borgarfjarðar í Arnarfirði. Einnig verður sagt frá þeim fjölbreyttu aðferðum sem notaðar eru við rannsóknina, allt frá hefðbundinni fornleifafræði yfir í hátækni fjarkönnunarbúnaðar.

Kynningin fer fram í kapellunni á Hrafnseyri en að henni lokinni verður einnig boðið upp á stutt vettvangsrölt á Hrafnseyri. Þá verður áhugasömum einnig boðið að slást í för með Margréti að Auðkúlu, sem er næsti bær við Hrafnseyri, en þar stendur yfir uppgröftur þessa dagana á landnámsbýli.

Það verður opið á kaffihúsinu í burstabænum, heitt á könnunni og vöflujárnið skíðlogandi.

Dagskráin er þrískipt og velkomið að taka þátt í öllum liðum hennar eða velja sér hluta.

Dagskrá:

13:00 Kynning á rannsókninni Arnarfjörður á miðöldum

14:00 Kaffihlé og spjall

14:30 Vettvangsrölt um Hrafnseyri

15:00 Vettvangsferð að Auðkúlu

Athugið að gestir þurfa sjálfir að koma sér yfir að Auðkúlu sem er í 10 mínútna akstursfjarlægð. Athugið að til að aka alla leið að uppgreftrinum þarf að fara yfir litla á. Einnig er hægt að leggja við ánna og ganga að staðnum.

Til baka

Upplýsingar

Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.

A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.

Opnunartími (Opening hours)

1. júní - 8. september

kl. 11:00 - 17:00 alla daga

Á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Hópar utan opnunartíma
Vinsamlegast hafið samband til að bóka komur hópa utan opnunartíma.

Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is