Jón Sigurðsson lifði og starfaði á þremur stöðum um ævina; á Hrafnseyri við Arnarfjörð, í Reykjavík og í Kaupmannahöfn.
Hann fæddist á prestssetrinu Hrafnseyri í Auðkúluhreppi við Arnarfjörð 17. júní 1811. Hann var frumburður séra Sigurðar Jónssonar aðstoðarprests þar og konu hans Þórdísar Jónsdóttur, og hlaut nafn sitt frá afa sínum, séra Jóni Ásgeirssyni í Holti í Önundarfirði. Hinn afinn, séra Jón Sigurðsson var prestur á Hrafnseyri. Yngri systkini Jóns voru Jens, fæddur 1813, sem síðar varð rektor Lærða skólans í Reykjavík og Margrét, fædd 1816, síðar húsfreyja á Steinanesi í Arnarfirði.
Reykjavík 1835
Biskupsstofan í Laufási 1836
Útför Jóns og Ingibjargar 4. maí 1880 í Reykjavík
Í Reykjavík vann Jón sem búðarsveinn og biskupsritari í fjögur ár (1829 - 1833) auk þess sem hann dvaldi í Reykjavík yfir þingtímann, 2-4 mánuði í hvert sinn, annað hvert sumar.
Vorið 1829, þegar Jón var næstum því 18 ára, hélt hann til smábæjarins Reykjavíkur til að taka stúdentspróf hjá dómkirkjuprestinum og fékk hann afar loflega prófumsögn. Jafnframt fékk hann prédikunarleyfi og hefði getað orðið prestur við svo búið. Þá bjuggu í Reykjavík um 600 manns. Jón bjó hjá föðurbróður sínum í Aðalstræti 5, Einari Jónssyni, sem var verslunarstjóri Knudtzonsverslunar í Hafnarstræti. Hjá honum vann Jón sem búðarloka fram til næsta árs.
Árið 1830 fékk Jón Sigurðsson vinnu sem ritari hjá biskupnum yfir Íslandi, Steingrími Jónssyni, sem bjó í Laugarnesi í nágrenni Reykjavíkur. Þar var hann heimilisfastur í þrjú ár. Hann kynntist á biskupssetrinu stærsta bóka- og handritasafni landsins, sem komið var úr Skálholti, og náði fljótlega leikni í að lesa gömul handrit. Hann var fenginn til þess að aðstoða menn, svo sem málfræðinginn Sveinbjörn Egilsson, sem komu að Laugarnesi til að kynna sér forn handrit. Eitt sumarið fór Jón í langa vísitasíuferð með biskupi um Vesturland.
Áður en hann sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1833 trúlofaðist hann Ingibjörgu Einarsdóttur sem var sjö árum eldri en hann. Hún var dóttir fyrrnefnds Einars Jónssonar verslunarstjóra og voru þau því bræðrabörn. Hún sat síðan í festum næstu 12 ár.
Garður (Regensen)
Haustið 1833 sigldi Jón Sigurðsson til Kaupmannahafnar að nema málfræði og sögu og fékk inni á Garði (Regensen) þar sem hann bjó í fjögur ár og kallaði sig Jón Sivertsen. Hann stundaði nám sitt af kappi og hlaut strax góðar einkunnir. Hann stundaði talsverða vinnu með námi sem ekki veitti af því hann hafði lítil fjárráð, en þetta varð til þess að námið sat stundum á hakanum. Árið 1838 lauk Garðvist Jóns Sigurðssonar. Hann hélt áfram námi enn um hríð en vegna anna við handritarannsóknir og útgáfustarfsemi lauk hann aldrei prófi.
Fljótlega eftir að Jón Sigurðsson hóf nám í málfræði við Kaupmannahafnarháskóla spurðist það út að hann væri nákvæmur og gagnrýninn í öllum vinnubrögðum. Jón fékk því mikla aukavinnu. Hann sat oft „á Turni“, þar sem Árnasafn og háskólabókasafnið voru, eða á Konunglegu bókhlöðunni á Hallarhólmanum og skrifaði upp forn handrit fyrir ýmsa aðila.
Á námsárum Jóns Sigurðssonar var mikil ólga meðal stúdenta og menntamanna í Kaupmannahöfn. Þeir kröfðust stjórnarskrár, þar sem ýmis mannréttindi væru tryggð, og þingbundinnar konungsstjórnar en Danmörk var þá enn einvaldsríki.
Upplýsingar
Ný sýning um Jón Sigurðsson var opnuð árið 2011 á Hrafnseyri í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu hans á staðnum.
A new exhibition about Jón Sigurðsson was opened in 2011 at Hrafnseyri celebrating his 200 years anniversary.
Opnunartími (Opening hours)
1. júní - 8. september
kl. 11:00 - 17:00 alla daga
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.
Hópar utan opnunartíma
Vinsamlegast hafið samband til að bóka komur hópa utan opnunartíma.
Sími: 456-8260
Netfang: hrafnseyri@hrafnseyri.is