Fornleifarannsókn var gerð á Hrafnseyri við Arnarfjörð dagana 11.-15. ágúst 2011 og 3.-4. júlí 2012 . Tilgangur rannsóknanna var að gera könnunarskurði á völdum stöðum á Hrafnseyri til að kanna ástand minja og rannsóknargildi og reyna að staðsetja miðaldabyggð í firðinum. Hrafnseyri liggur norðanvert við Arnarfjörð, gengt Langanesi. Náttúrustofa Vestfjarða stendur fyrir verkefninu „Miðaldir í Arnarfirði“, en megintilgangurinn með því verkefni er að skrá fornleifar og rannsaka frekar valdar minjar um elstu byggð í firðinum.
Við teljum að með því að stuðla að rannsóknum á miðaldaminjum í Arnarfirði fáist mikilvægt yfirlit yfir tímabil sem lítil vitneskja er annars um. Með því að leggja áherslu á Arnarfjörð sérstaklega fæst heildstætt svæðisbundið yfirlit yfir upphaf og þróun byggðar, auk þess sem fyllri upplýsingar fást um líf og lífshætti Vestfirðinga á miðöldum. Við rannsóknina verða nýttar upplýsingar frá öðrum rannsóknum sem fram hafa farið í firðinum.
Fornleifarannsóknina önnuðust fornleifafræðingarnir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Dr. Rhonda Bathrust , Angelos Parigoris og Guðný Zoega.
Gamli Kirkjugarðurinn á Hrafnseyri er frá frumkristni.
Sumarið 2012 var einnig grafið í gamla kirkjugarðinum sem stendur við hlið núverandi kirkju. Í kirkjugarðinum er greinileg rúst af kirkju. Í vetur voru sýni úr kirkjugarðinum send til aldursgreiningar. Greind vour sýni úr einstakling sem jarðaður hafði verið fast við kirkjugarðsvegg. Í ljós kom að þessi einstaklingur hefur látist á fyrrihluta 11. aldar og því allar líkur á að kirkja og kirkjugarður hafi verið risið á Hrafnseyri stuttu eftir kristnitöku.
Kirkjugarðurinn og kirkjurústin eru mjög merkilegar minjar, kirkjugarðsveggurinn er ferkanntaður og mjög voldugur en flestir kirkjugarðar frá þessum tíma voru hringlaga.
Stjórnandi Rannsóknarinnar er Margrét Hrönn Hallmundsdóttir fornleifafræðingur